Endurreisn bankanna lokið

18. desember 2009

Endurreisn íslensku viðskiptabankanna er lokið. Gengið hefur verið frá samningum, á milli íslenskra stjórnvalda og nýju bankanna, annars vegar, og skilanefnda Glitnis, Landsbanka Íslands og Kaupþings, fyrir hönd kröfuhafa, hins vegar, um uppgjör vegna eigna sem færðar voru úr gömlu bönkunum yfir í þá nýju í október 2008. Arion banki, Landsbankinn og Íslandsbanki eru nú fullfjármagnaðir bankar sem standa á traustum fjárhagslegum grunni tilbúnir til þess að þjóna heimilum landsins og atvinnulífi.

Alls nemur hlutafjárframlag ríkisins til bankanna 135 ma.kr. Upphaflega var gert ráð fyrir að þetta framlag yrði 385 ma.kr. og er það því 250 ma.kr. lægra. Auk þess veitir ríkið tveim bönkum víkjandi lán: Arion banka að fjárhæð 24 ma.kr. og Íslandsbanka að fjárhæð 25 ma.kr. Samtals nemur fjárbinding ríkissjóðs vegna endurreisnar bankanna því 184 ma.kr.

Banki

Heildar

hlutafé

(ma.kr.)

Hlutafé

ríkis

(ma.kr.)

Hlutur

ríkis

(%)

Víkjandi lán

frá ríki

(ma.kr.)

Heildar

fjárbinding

ríkis (ma.kr.)

Arion banki

72

9,36

13

 13

 33,36

Íslandsbanki

65 

  3,25 

5

25 

 28,25

Landsbankinn

 150

 122

81

 0

 122

Samtals

287

134,61

-

49

183,61

 Niðurstaðan er mjög hagstæð fyrir ríkissjóð og leiðir hún til þess að vaxtagjöld ríkissjóðs verða samtals um 46 ma.kr. lægri árin 2009 og 2010 en þau hefðu orðið miðað við upphaflegar áætlanir. Af því vegur sú niðurstaða að kröfuhafar Kaupþings og Glitnis eignast Arion banka og Íslandsbanka þungt, en hún leiðir til samtals 21 ma.kr. lægri vaxtakostnaðar árin 2009 og 2010.

Ríkið á hlut öllum bönkunum þremur, mest í Landsbankanum, 81%, 13% í Arion banka og 5% í Íslandsbanka. Þessir eignarhlutir gefa ríkinu fjögur sæti í stjórn Landsbankans og eitt sæti í hvorum hinna tveggja. Bankasýsla ríkisins mun fara eignarhlut ríkisins í fjármálafyrirtækjum og annast hún öll samskipti við fjármálafyrirtæki í eigu ríkisins fyrir þess hönd. Þá hefur stjórn Bankasýslunnar það hlutverk að skipa fulltrúa ríkisins í stjórnir fjármálafyrirtækja sem það á eignarhlut í á grundvelli tilnefningar sérstakrar valnefndar. Bankasýslan og fulltrúar ríkisins í stjórnum fjármálafyrirtækja starfa á grundvelli eigendastefnu ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Megininntak hennar er að stuðla að uppbyggingu heilbrigðs og öflugs fjármálakerfis sem þjónar hagsmunum íslensks samfélags, að byggja upp traust og trúverðugleika á íslenskum fjármálamarkaði og að ríkið fái arð af því fé sem það leggur til íslenskra fjármálafyrirtækja.

Í febrúar síðastliðnum tók ríkisstjórnin ákvörðun um að setja vinnu við endurreisn bankanna í nýjan og fastan farveg. Settur var á fót stýrihópur þriggja ráðuneyta, forsætisráðuneytis, efnahags- og viðskiparáðuneytis auk fjármálaráðuneytis sem hafði forystu í málinu. Í framhaldi var Þorsteinn Þorsteinsson ráðinn til fjármálaráðuneytisins sem aðalsamningamaður stjórnvalda í samningaviðræðum við skilanefndirnar ásamt breska ráðgjafafyrirtækinu Hawkpoint.

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra um niðurstöðuna: „Þeir sem borið hafa hitann og þungann af þessu viðamikla og flókna ferli hafa unnið þrekvirki. Þessi niðurstaða léttir miklum byrðum af ríkissjóði, sér í lagi vaxtagjöldum á næstu árum. Við eigum nú þrjá heilbrigða og fullfjármagnaða banka sem geta nú einbeitt sér að því að veita heimilinum í landinu og atvinnulífinu nauðsynlega þjónustu. Þessar góðu fréttir eru gott veganesti inn í nýtt ár ásamt fréttum af lægri vöxtum, lægri verðbólgu, minna atvinnuleysi og jafnvel hagvexti á næsta ári.“

Upprunalegu fréttatilkynningu fjármálaráðuneytisins má einnig nálgast hér.

Og á heimasíðu fjármálaráðuneytisins.