Danir gera upplýsingasamning vegna FATCA

21. nóvember 2012

Bandaríska fjármálaráðuneytið

Bandarísk og dönsk stjórnvöld hafa gert með sér upplýsingaskiptasamning á sviði skattamála í tengslum við gildistöku FATCA-laganna í Bandaríkjunum (Foreign Account Tax Compliance Act). Samningurinn er aðgengilegur á heimasíðu bandaríska fjármálaráðuneytisins. SFF hafa verið í samskiptum við fjármálaráðuneytið  í tengslum við gildistöku FATCA en það er mat samtakana að gerð samnings á borð við þann sem dönsk stjórnvöld hafa gert við bandarísk stjórnvöld myndu auðvelda íslenskum fjármálafyrirtækjum að uppfylla skilyrði FATCA.

Lögin miða að því að auka heimildir bandarískra skattayfivalda (IRS) til að koma böndum á bandaríska einstaklinga og lögaðila, sem hyggjast komast hjá greiðslu skatta vegna eigna utan Bandaríkjanna. Upphaflega átti IRS að fá heimild frá og með 1. janúar 2013 til að krefjast þess af fjármálafyrirtækjum utan Bandaríkjanna að þau veiti upplýsingar um innstæður og eignir bandarískra aðila í vörslu þeirra. Ef þau verða ekki við þessu eiga þau á hættu á að bandarísk stjórnvöld leggi 30% afdráttarskatt á greiðslur til þessara fyrirtækja frá Bandaríkjunum.

SFF hafa unnið að því að vekja athygli aðildarfélaga sinna á þessum reglum og kallað eftir viðbrögðum stjórnvalda við þeim.