Breytt framkvæmd fjármagnstekjuskatts

30. júní 2011

Samtök fjármálafyrirtækja (SFF) vilja vekja athygli á að frá og með 1. júlí nk. munu fjármálafyrirtæki halda eftir 20% skatti af fjármagnstekjum þegar þær eru greiddar eða verða greiðslukræfar. Breytingin á fyrst og fremst við um fjármagnstekjur af verðbréfum eins og hlutdeildarskírteinum og skuldabréfum þar sem vextir mynduðust fyrir 1. janúar 2011.Fjármagnstekjur hafa verið greiddar árlega eða mánaðarlega af innstæðum á bankareikningum og því er um óbreytta tilhögun að ræða á þeim reikningum. Fjármálafyrirtæki hafa það lögbundna hlutverk að halda eftir skatti af fjármagnstekjum viðskiptamanna sinna og skila í ríkissjóð. Skatthlutfall fjármagnstekjuskatts var hækkað úr 10% í 15% á miðju ári 2009, úr 15% í 18% í ársbyrjun 2010 og í 20% í ársbyrjun 2011. Hingað til hafa fjármálafyrirtækin reiknað þá fjárhæð sem halda ber eftir skatti af á grunni skattprósentunnar eins og hún var á hverjum tíma. Hækkuð skattprósenta hefur þannig aðeins náð til þess hluta skattstofnsins sem myndast hefur frá lögfestingu hennar. Þessi framkvæmd hefur verið í góðri samvinnu við embætti ríkisskattstjóra. Við gerð rafrænna skattframtala í febrúar 2011 kom fram ógreiddur fjármagnstekjuskattur hjá viðskiptavinum og lýstu Samtök fjármálafyrirtækja áhyggjum af því og óskuðu skýringa frá RSK. Í bréfi sem RSK sendi Samtökum fjármálafyrirtækja þann 3. maí sl. kemur fram breytt álit RSK þess efnis að fjármagnstekjur skulu skattleggjast með því skatthlutfalli sem við á þegar fjármagnstekjur eru greiddar eða verða greiðslukræfar. Héðan í frá munu fjármálafyrirtækin því halda eftir 20% skatti af fjármagnstekjum en ekki horfa til lægri skatthlutfalla sem giltu á þeim tíma sem skattstofninn myndaðist. Viðskiptavinir fjármálafyrirtækja sem hafa greitt fjármagnstekjuskatt samkvæmt framangreindu á tímabilinu 1.1.2010 til og með 30.06.2011 mega búast við að mismunur myndist við álagningu ríkisskattstjóra, þar sem lægri fjárhæð var haldið eftir í staðgreiðslu en væntanlegum álögðum skatti á fjármagnstekjurnar. Ef viðskiptavinir eru ósáttir við álagninguna má kæra hana til ríkisskattstjóra með rafrænum hætti á vefsvæðinu skattur.is. Kærufrestur er 30 dagar frá tilkynningu álagningar. Ef yfirskattanefnd eða dómsstólar komast að annarri niðurstöðu en RSK um túlkun laganna ber RSK að endurgreiða oftekinn skatt.