Bætur vegna sjúkratrygginga verði ekki skattlagðar

20. maí 2010

"Í Morgunblaðinu í dag er fjallað um nýja túlkun á tekjuskattslögum sem veldur því að hugsanlegt sé að þeir sem hafa fengið greiddar eingreiðslubætur úr sjúkdómatryggingum á síðustu árum þurfi að greiða tekjuskatt af bótunum. Skýrt er frá bréfi sem Gigtarfélag Íslands, Hjartaheill og Krabbameinsfélagið hafa sent efnahags- og skattanefnd Alþingis þar sem bent er á að brýnt sé að taka af öll tvímæli um að bætur úr sjúkdómatryggingum séu ekki og verði ekki til framtíðar tekjuskattsskyldar. Samtök fjármálafyrirtækja telja mikilvægt að eyða óvissu um skattalega meðferð bóta og taka undir þau sjónarmið sem koma fram í framangreindu bréfi.

Frá því sala sjúkdómatrygginga hófst hér á landi um miðjan síðasta áratug hefur verið litið svo á að bætur úr sjúkdómatryggingum, sem ákveðnar eru í einu lagi til greiðslu, séu skattfrjálsar samkvæmt 2. tl. 28. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. Samkvæmt því ákvæði skal ekki teljast til tekna eignaauki sem verður vegna greiðslu líftryggingarfjár, dánarbóta, miskabóta og bóta fyrir varanlega örorku, enda séu bætur þessar ákveðnar í einu lagi til greiðslu. Sjúkdómatryggingu er ætlað að bæta miska sem hlýst af því að greinast með erfiðan sjúkdóm eða varanlega örorku af völdum sjúkdóms eða slyss. Flestir þeir sjúkdómar og fatlanir sem sjúkdómatrygging greiðir bætur vegna eru þess eðlis að þeir hafa í för með sér varanlegar afleiðingar. Þá flokkast sjúkdómatrygging sem líftrygging samkvæmt skilgreiningu í lögum um vátryggingarsamninga, nr. 30/2004.

Á árinu 2009 komst yfirskattanefnd að gagnstæðri niðurstöðu og úrskurðaði að bótafjárhæð úr sjúkdómatryggingu væri tekjuskattsskyld og félli undir 2. tl. A-liðs 7. gr. tekjuskattslaga. Kærandi hefur skotið málinu til dómstóla og er það nú til meðferðar hjá héraðsdómi Reykjavíkur. Endanleg dómsniðurstaða í málinu mun hafa mikla mikla þýðingu fyrir bótaþega til framtíðar auk þess sem hún hefur áhrif á rekstrargrundvöll þessarar vátryggingagreinar hér á landi.

Samtök fjármálafyrirtækja hafa farið þess á leit við efnahags- og skattanefnd Alþingis að 2. tl. 28. gr. tekjusattslaga verði breytt á þann hátt að tekin verði af öll tvímæli um að eingreiðslubætur úr sjúkdómatryggingum séu ekki tekjuskattsskyldar. Óvissa um skattskyldu bóta úr sjúkdómatryggingum kemur sér illa, ekki síst fyrir viðskiptavini vátryggingafélaga sem hafa keypt vátrygginguna og/eða móttekið bætur í þeirri trú að bætur séu skattfrjálsar."

Hér má sjá bréf Gigtarfélags Íslands, Hjartaheillar og Krabbameinsfélagsins