Átta milljarðar í sértæka skatta

09. nóvember 2012

Höskuldur H. Ólafsson

Höskuldur H. Ólafsson, formaður stjórn SFF, sagði í dag á fundi  um tillögur Samtaka atvinnulífsins um breytingar á skattakerfinu, að fjármálafyrirtæki hafi greitt um átta milljarða til ríkissjóðs á síðustu árum vegna sértækra skatta sem hafa verið lagðir beint á fjármálakerfið.

Fram kom í máli Höskuldar að aðildarfélög SFF muni greiða um 25 milljarða skatta og álögur á þessu ári eða um fjórum milljörðum meira en árið 2007 þegar bankakerfið var sem stærst. Þessi aukning er að stórum hluta komin til vegna aukningar á ótekjutengdum álögum . Höskuldur sagði slíka skattheimtu vera ósanngjarnari en tekjutengda skattheimtu og óumflýjanlegt sé að hún bitni á viðskiptamönnum fjármálafyrirtæki. Benti hann á að heildarvaxtarmunur stóru viðskiptabankana í fyrra hafi verið 87 milljarðar og ótekjutengdu gjöldin á árinu 2011 námu 14% af þeirri fjárhæð: „Enginn vafi er á því að svo mikil skattlagning á kostnað fjármálafyrirtækjanna hlýtur að hafa áhrif á vaxtamun til hækkunar.  Hjá minni fjármálafyrirtækjum sem einkum hafa tekjur á formi þóknana frá viðskiptavinum hlýtur þessi kostnaður að hafa bein áhrif á gjaldtöku þeirra,“ sagði Höskuldur í ræðu sinni.

SA stóð fyrir fundinum í tengslum við útgáfu rits um skattamál atvinnulífsins undir yfirskriftinni Ræktun eða rányrkja? Í ritinu er leiðinni til betra skattkerfis lýst og settar eru fram tillögur að markvissum breytingum á næstu fjórum árum sem miða að því að bæta hag fólks, fyrirtækja og ríkissjóðs. Ritið má nálgast hér. Ræða Höskuldar er aðgengileg í gagnasafni SFF.