Athugasemd við fréttaflutning DV

30. september 2011

Samtök fjármálafyrirtækja vilja gera athugasemd við frétt DV síðastliðinn mánudag.  Fréttin byggði á greiningu á tölum Seðlabanka um þróun útlána banka og sparisjóða. Gerður var samanburður á útlánum í september 2008, október 2008 og júlí 2010. Sérstaklega var lagt útfrá breytingu útlána milli september 2008 og október 2008 en milli þeirra tímamarka féllu gömlu bankarnir og nýju bankarnir yfirtóku hluta af eignum þeirra auk ýmissa skuldbindinga. Stærstur hluti yfirtekinna skulda voru innlán . Ályktað var um mögulega niðurfærslu útlána til almennings á grunni  þeirra breytinga sem orðið höfðu milli september og október 2008.

Þennan mismun á útlánum lánastofnana fyrir og eftir hrun er hins vegar ekki hægt að nota sem mælikvarða á ,,afslátt“ lána við flutning þeirra frá gömlu bönkunum til nýju bankanna. Margar ástæður eru fyrir því:


a.       Aðeins innlendar eignir voru fluttar til nýju bankanna. Lán til erlendra aðila voru skilin eftir í gömlu bönkunum. Tölur Seðlabankans taka ekki tillit til þessa.


b.      Hluti innlendra eigna (þ.m.t. útlána)  voru skildar eftir í gömlu bönkunum, þ.e. þær sem talið var að væru óinnheimtanlegar, svo sem lán til eigenda banka eða félaga á vegum þeirra. Sundurliðun á þessum lið fylgir ekki.


c.       Stór hluti íbúðalánasafns bankanna (um 200 milljarðar.kr) var veðsettur og yfirtekinn af aðilum öðrum en innlánsstofnunum og færðist ekki yfir til nýju bankanna.  Í tölum Seðlabankans er ekki tekið tillit til þessa.

Í heild lækkuðu íbúðalán um 290 milljarða króna í reikningum bankakerfis milli september og október 2008 eins og réttilega fram kemur í blaðinu.  Rúmir 200 milljarðar króna færðust á móti úr bókum bankanna af þeirri ástæðu sem tilgreind er hér að framan. Það sem eftir stendur af lækkun íbúðalánanna skýrist af endurmati þeirra, eða um 90 milljarðar  króna, og er það í samræmi við uppgefnar tölur frá Fjármálaeftirliti sem birtust í svari efnahags- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn á Alþingi á síðastliðnu þingi, þar sem hann var beðinn um að gera grein fyrir því svigrúmi sem væri til niðurfærslu á lánum heimilanna.

Tölur um afskriftasvigrúmið (niðurfærslu lána við flutning þeirra til nýju bankanna) er ekki hægt að bera saman við niðurfærslu lána í tengslum við fjárhagslega endurskipulagningu heimila og fyrirtækja.  Stór hluti fer til afskrifta á kröfum sem tapast við gjaldþrot eða árangurslaust fjárnám. Nýting á niðurfærslunni er því tvíþætt, a) fjárhagsleg endurskipulagning og b) gjaldþrot. Tölur þær sem fjármálafyrirtækin hafa verið birta að undanförnu taka aðeins til fjárhagslegrar endurskipulagningar og endurútreiknings lána. Samtals hafa lán til heimila verið lækkuð um 144 milljarða króna frá hruni til júlíloka, 2011 þar af íbúðalán um 104 milljarða króna. Þá tölu verður að skoða í ljósi þeirra 90 milljarða króna sem fram komu í svari efnahags- og viðskiptaráðherra á Alþingi og hún sýnir þá jafnframt að lengra hefur verið gengið en svigrúmið svokallað leyfir í reynd. Enn er fjöldi mála í vinnslu og mun því þessi tala enn hækka á næstu mánuðum. Að auki má nefna að einn bankinn tilkynnti í vikunni um 23 milljarða króna lækkun skulda sinna viðskiptavina 29. september sem kemur til viðbótar þeim 144 milljörðum króna sem áður hafa verið tilgreindir.