Alvarlegar hindranir fyrir skuldabréfaútgáfu erlendis

17. janúar 2013

Höfuðstöðvar Euroclear verðbréfamiðstöðvarinnar í Brussel.

Í viðskiptablaði Morgunblaðsins í dag er fjallað um möguleika íslenskra fyrirtækja til skuldabréfaútgáfu erlendis á þessu ári. Í fréttaskýringunni er haft eftir fulltrúum Íslandsbanka og Arion banka að aðstæður á mörkuðum erlendis kunna að opna færa leið fyrir íslensk fjármálafyrirtækjum til útgáfu skuldabréfa í erlendri mynt. En eins og fram kemur í fréttaskýringunni þá útilokar hinsvegar núverandi ákvæði laga, um skattskyldu erlendra aðila af vaxtatekjum,  skráningu skuldabréfa erlendis. Þetta gildir ekki eingöngu um fjármálafyrirtæki heldur útgáfu allra innlendra aðila þar með talið íslenska ríkið og Landsvirkjun.

Skattskylda erlendra aðila af vaxtatekjum setur íslenskum fyrirtækjum alvarlegar hindranir til fjármögnunar með útgáfu og skráningu alþjóðlegra skuldabréfaramma (EMTN). Þetta á jafnt við um fjármálafyrirtæki sem og önnur stórfyrirtæki, í einkaeigu eða opinberri eigu.
SFF tóku upp þetta má við stjórnvöld síðastliðið vor. Samtökin lögðu mikla áherslu á þetta mál enda má öllum vera ljóst hversu miklir hagsmunir eru í húfi fyrir íslenskt efnahagslíf. Innan stjórnkerfisins var skilningur á málinu og þegar hinn svokallaði bandormur um ráðstafanir í ríkisfjármálum var lagður fram á Alþingi í haust var þar að finna ákvæði um að afnema með öllu þessa skattskyldu og ryðja þar með úr veginum hindrun fyrir fjármögnun íslenskra fyrirtækja erlendis. Hinsvegar lagði efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis til breytingartillögu á lokadögum haustþingsins sem fól í sér að hætt yrði við að afnema afdráttarskattinn en þess í stað myndu stjórnvöld veita undanþágur frá honum. SFF og Samtök atvinnulífsins mótmæltu þessu harðlega enda ljóst að betur væri heima setið en af stað farið: undanþáguleiðin hefði ekki með nokkru móti greitt fyrir fjármögnun íslenskra fyrirtækja á erlendum mörkuðum og valdið enn meiri ringulreið í samskiptum íslenskra fyrirtækja við erlenda fjármagnsmarkaði sem furða sig á tíðum skattabreytingum hér á landi.

Að endingu ákvað Alþingi að halda ákvæðum um skattskyldu erlendra aðila af vaxtatekjum óbreyttum en setja af stað vinnu í byrjun árs með það að markmiði að ná farsælli lausn.  Þingnefndin fundaði um máið með hagsmunaðilum í þessari viku.   Eins og frétt Morgunblaðsins ber með sér er mikilvægt að ná lendingu í þetta mál á komandi vikum þar sem núverandi löggjöf gerir íslenskum fyrirtækjum ókleyft að fjármagna sig erlendis með útgáfu skráðra hlutabréfa.