Afskriftir vegna fyrirtækja um 270 milljarðar

20. desember 2010

Bankar og sparisjóðir hafa samtals afskrifað 112 milljarða króna af skuldum starfandi fyrirtækja frá upphafi árs 2009. Afskriftirnar eru til komnar í tengslum við fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækjanna.

Samkvæmt upplýsingum frá stærstu lánastofnunum hafa um 160 milljarðar króna verið afskrifaðir í tengslum við gjaldþrot fyrirtækja. Er þar bæði um að ræða eignarhaldsfélög og einnig rekstrarfélög sem komist hafa í þrot.

Ef afskriftir starfandi fyrirtækja eru sundurliðaðar kemur í ljós að í tengslum við fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja, þar sem bankar eða sparisjóðir hafa neyðst til að taka yfir félög, hafa verið afskrifaðir um 71 milljarður króna frá 1. janúar 2009.

Bankar og sparisjóður hafa afskrifað um 41 milljarð króna hjá rekstrarfélögum sem hafa gengið í gegnum, eða eru í fjárhagslegri endurskipulagninu og eru enn í óbreyttu eignarhaldi.

Uppsafnaðar afskriftir á skuldum fyrirtækja frá 1.1.2009 
Gjaldþrota félög160 milljarðar
Félög yfirtekin af bönkum og sparisjóðum71 milljarður
Rekstrarfélög í óbreyttu eignarhaldi41 milljarður
Samtals272 milljarðar

Heildar afskriftir banka og sparisjóða vegna fyrirtækja frá ársbyrjun 2009 nema nú samtals um 270 milljörðum króna. Búast má við að þessi tala hækki verulega á næstu mánuðum.

Guðjón Rúnarsson framkvæmdastjóri SFF;

"Þessar afskriftartölur sýna að töluvert hefur verið gert í málefnum fyrirtækja frá hruni þó enn sé margt ógert og hægar hafi miðað en vonast var til. Nú hefur verið undirritað samkomulag við stjórnvöld og samtök í atvinnulífinu sem miðar að því að flýta úrvinnslu skuldsettra fyrirtækja enn frekar. Á grunni þess samkomulags er stefnt að því að tryggja lífvænlegan rekstur eins margra fyrirtækja og unnt er til að koma hjólum efnahagslífsins af stað. Þetta er forsenda þess að fyrirtæki geti ráðist í fjárfestingar og með því haldið uppi atvinnustigi í landinu. Ef þær koma ekki til munu gjaldþrot verða enn fleiri.“