Aðildarfélög SFF bera þyngstu byrðarnar

16. maí 2019

„Enginn geiri greiðir hærri skatta og gjöld til ríkisins en fjármálageirinn og þar bera aðildarfélög SFF þyngstu byrðarnar. Aðildarfélögin hafa greitt að meðaltali um 40 milljarða á ári til ríkisins undanfarin ár og er ríflega helmingurinn af þeirri fjárhæð í formi ótekjutengdra gjalda.“ Þetta er meðal þess sem kom fram í ræðu Stefáns Péturssonar, nýkjörins stjórnarformanns SFF á aðalfundi samtakanna sem fór fram í gær.

Í ræðu sinni sagði Stefán að margt í umhverfi íslenskra fjármálafyrirtækja grafi undan samkeppnisumhverfinu. Hann sagði margar gagnlegar tillögur koma fram í Hvítbók stjórnvalda um framtíðarsýn um fjármálakerfið og hvatti stjórnvöld að hrinda  þeim í framkvæmd til að styrkja samkeppnisumhverfið.

Til þess að undirstrika skekkjuna á samkeppnisumhverfinu benti Stefán á að lífeyrissjóðirnir greiði til að mynda ekki bankaskattinn sem er í raun skattur á fjármögnun bankanna. Þetta hefur leitt til þess að lífeyrissjóðirnir hafi aukið hlutdeild sína á markaðnum með fasteignalán á undanförnum árum.  Auk þess skera bankarnir sig frá öðrum lánveitendum þar sem þeir borga fjársýsluskatt, sérstakan tekjuskatt og síauknar eiginfjárkröfur auk vaxtalausrar bindiskyldu. Sagði Stefán þetta allt leggst á eitt til hækkunar á kostnaði í kerfinu.

Stefán sagði enn fremur aðkallandi að jafna samkeppnisskilyrði ólíkra fjármálafyrirtækja, ekki síst vegna þess að þátttakendum á fjármálamarkaði fjölgar hratt með tilkomu fjártæknibyltingarinnar. „Til þess að íslenskir neytendur njóti þess ábata sem framþróunin sem nú á sér stað í fjármálageiranum mun skila er brýnt að allir þeir sem veita fjármálaþjónustu sitji við sama borð þegar kemur að samkeppnisumhverfinu.“